Persónuverndarstefna

Vinsamlega kynntu þér persónuverndarstefnu þessa vel og vandlega. Ef þú samþykkir ekki efni hennar getur þú ávallt hætt að nota þjónustu Blikk.

Vefkökur

Við notum vafrakökur til að safna og greina upplýsingar um notkun og virkni vefsíðunnar, til að geta notað lausnir frá samfélagsmiðlum og til að bæta efni og birta viðeigandi markaðsefni.

Gildissvið og meðferð persónuupplýsinga

Persónuverndarstefna þessi (hér eftir “stefnan”) gildir um vinnslu persónuupplýsinga hjá
Blikk hugbúnaðarþjónustu hf., kt. 530922-1620, Lágmúla 9, 108 Reykjavík (hér eftir “Blikk”).
Blikk skuldbindur sig til þess að vinna aðeins með persónuupplýsingar á þann hátt sem
lýst er í stefnu þessari og samræmist ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og
vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/679
(GDPR) (hér eftir sameiginlega nefnd “persónuverndarlög”).


Nánar tiltekið gildir stefna þessi um alla starfsemi Blikk í tengslum við þjónustur þar sem
vinnsla persónuupplýsinga fer fram, allar persónuupplýsingar sem þú afhendir Blikk eða
sem Blikk safnar um þig í gegnum vefsíðu Blikk, www.blikk.tech, og aðrar netþjónustur
Blikk s.s. tölvupóst, forrit og aðrar þjónustur sem Blikk býður upp á. Stefna þessi tekur þó
aðeins til einstaklinga en ekki lögaðila. Þá nær stefna þessi ekki yfir aðrar vefsíður sem
vefsíða Blikk vísar til með tengli.


Vinsamlega kynntu þér persónuverndarstefnu þessa vel og vandlega. Ef þú samþykkir
ekki efni hennar getur þú ávallt hætt að nota þjónustu Blikk.

Ábyrgðaraðili og vinnsluaðili

Ábyrgðaraðili er sá sem ber ábyrgð á því að sú vinnsla sem fer fram samræmist
persónuverndarlögum hverju sinni og ábyrgðaraðili verður að geta sýnt fram á það.
Ábyrgðaraðili ákveður tilgang vinnslunnar og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga.

Ábyrgðaraðili er Blikk hugbúnaðarþjónusta hf., kt. 530922-1620, Lágmúla 9, 108 Reykjavík.

Vinnsluaðili er sá sem vinnur persónuupplýsingar á vegum ábyrgðaraðila eða f.h.
ábyrgðaraðila á grundvelli vinnslusamnings og miðlar þeim áfram til notenda. Ef Blikk
nýtir sér þjónustu vinnsluaðila er gerður vinnslusamningur við vinnsluaðila.

Í einhverjum tilvikum geta ábyrgðaraðilar verið fleiri en einn en þá fer vinnsla
persónuupplýsinga fram á vegum tveggja eða fleiri aðila. Þá bera allir aðilar ábyrgð á
afmörkuðum þáttum vinnslunnar og teljast vera sameiginlegir ábyrgðaraðilar. Ef Blikk
vinnur á þann hátt með aðila um vinnslu persónuupplýsinga er gert samkomulag um
sameiginlega ábyrgð.

Söfnun persónuupplýsinga og tilgangur

Þegar þú skráir þig í þjónustu Blikk þá safnar Blikk upplýsingum um þig, bæði sem þú
afhendir Blikk eða koma frá öðrum aðilum í tengslum við þjónustuna. Helsta söfnunin fer
fram á grundvelli viðskiptasambands í þeim tilgangi að geta boðið viðskiptavinum upp
á þær vörur og þjónustu sem Blikk er með. En einnig getur söfnun upplýsinga farið fram
á grundvelli lagaskyldu eða til að uppfylla kröfur stjórnvalda, fylgja innri stefnum og
almennum viðskiptaskilmálum Blikk. Eftirfarandi eru þær upplýsingar sem safnað er:

    • Grunnupplýsingar til þess að búa til persónulegan aðgang fyrir þig. Það eru
    samskiptaupplýsingar eins og nafn, heimilisfang, netfang, símanúmer eða
    upplýsingar sem auðkenna þig eins og kennitala, upplýsingar um þjóðerni eða
    skilríki s.s. vegabréf, ökuskírteini og rafræn auðkenning. Þessum upplýsingum er
    einnig safnað til þess að geta haft samband við þig á meðan á
    viðskiptasambandi stendur.

    • Reikningsupplýsingar sem safnað er þegar þú tengir reikningana þína við
    þjónustu Blikk eins og upplýsingar um stöðu reiknings, veltu, hreyfingar og
    reikningsnúmer. Einnig getur þú þurft að veita upplýsingar um innskráningarskilríki
    eða öryggisskilríki fyrir vefþjónustu sem Blikk tengist við þriðja aðila til að ná í
    reikningsupplýsingarnar.

    • Beiðnir sem verða til í tengslum við virkjun greiðslu er safnað og aðrar upplýsingar
    sem verða til þegar fyrirmæli um að virkja greiðslu fer fram. Það geta verið
    upplýsingar eins og auðkennisupplýsingar, upplýsingar um
    reikningsupplýsingaþjónustuveitanda, reikningsnúmer, upplýsingar um
    viðtakanda greiðslu auk annarra gagna sem þarf til samskipta við
    reikningsupplýsingaþjónustuveitanda þinn.

    • Samningar, skilmálar og samþykki sem verða til í tengslum við þá samninga sem
    þú gerir við Blikk er safnað í þeim tilgangi að framfylgja ákvæðum samninga.

    • Opinberar upplýsingar sem aflað er vegna viðskiptasambandsins og upplýsingar
    sem verða til vegna áreiðanleikakannana. Áreiðanleikakannanir eru
    framkvæmdar á grundvelli laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og
    fjármögnun hryðjuverka og eru gerðar til að ganga úr skugga um að tilgangur og
    eðli viðskiptasambandsins sé í samræmi við ákvæði laga.

    • Upplýsingar um hegðun og notkun á vörum og þjónustu Blikk er safnað í þeim
    tilgangi að geta bætt þjónustu og vörur Blikk, auðvelda innskráningu og veita
    tölfræði- og virkniupplýsingar um viðskiptavini, sbr. nánari umfjöllun um vefkökur á
    vefsíðu Blikk.

Ofangreindar upplýsingar eru ekki tæmandi talning á þeim persónuupplýsingum sem er
safnað en Blikk getur safnað öðrum upplýsingum um þig ef nauðsynlegt þykir vegna eðli
viðskiptasambandsins eða samskiptum hverju sinni.

Öryggi og varðveisla upplýsinga

Öryggi persónuupplýsinga þinna er í forgangi hjá Blikk. Blikk hefur þróað tæknilegar og
skipulagslegar öryggisráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar þínar í þeim tilgangi
að koma í veg fyrir óheimila notkun, afritun, aðgang eða afhendingu til þriðja aðila til að
fyrirbyggja að upplýsingar glatist, séu ranglega skráðar eða önnur misnotkun á
upplýsingum eigi sér stað. Persónubundnar aðgangsstýringar, dulkóðun, notkun
gerviauðkenna, álagsprófanir eru dæmi um slíkar öryggisráðstafanir.

Blikk varðveitir persónuupplýsingar aðeins eins lengi og nauðsynlegt er til að Blikk geti
sinnt þeirri þjónustu sem í boði er en einnig í samræmi við ákvæði laga eða
viðskiptahagsmunir krefjast og málefnaleg ástæða þykir til. Lög geta kveðið á um
varðveislutíma persónuupplýsinga eins og lög um bókhald nr. 145/1994, lög um
tekjuskatt nr. 90/2003, lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og lög um aðgerðir gegn
peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 og ganga þau þá framan
almennum meginreglum um varðveislutíma. og starfsemi sinni í ljósi viðskiptasambands
og upphaflegan tilgang vinnslunnar eða vegna viðskiptalegra hagsmuna Blikk. Í
einhverjum tilvikum, í stað þess að eyða persónuupplýsingum þínum, eru upplýsingarnar
gerðar ópersónugreinanlegar með afmáningu persónuauðkennis. Þá eru upplýsingarnar
ekki lengur persónuupplýsingar.

Miðlun persónuupplýsinga

Persónuupplýsingum getur verið miðlað til þriðja aðila að því marki sem það er
nauðsynlegt til að framfylgja samningsskyldum og til að veita þá þjónustu sem er í boði
fyrir þig. Þá miðlar Blikk upplýsingum til opinberra aðila þegar það er skylt lögum
samkvæmt og þess er óskað, svo sem til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands eða öðrum
eftirlitsaðilum, skattayfirvöldum, dómstólum eða ríkislögreglustjóra.

Í einhverjum tilvikum getur persónuupplýsingum verið miðlað út úr landi og út fyrir
evrópska efnahagssvæðið (EES). Slíkt er einungis gert ef það er nauðsynlegt til að verða
við beiðnum viðskiptavinar eða þess sé krafist lögum samkvæmt. Þegar slík miðlun á sér
stað er þó gætt að ítrustu öryggiskröfum í samræmi við persónuverndarlög.

Vinnsla persónuupplýsinga um börn

Vinnsla á persónuupplýsingum um barn getur farið fram af hálfu Blikk ef það er nauðsynlegt í þeim tilgangi að veita þá þjónustu sem óskað er eftir. Ef barn sem nýtir sér þjónustu eða vöru Blikk hefur ekki náð 13 ára aldri mun Blikk ávallt afla samþykkis forráðamanns fyrir vinnslu persónuupplýsinga um barnið, í samræmi við persónuverndarlög.

Réttindi hins skráða

Í samræmi við persónuverndarlögin átt þú rétt á því að ákveðnar ráðstafanir séu gerðar
til að tryggja réttindi þín við vinnslu persónuupplýsinga. Þessi réttindi eru eftirfarandi:

    • Upplýsingaréttur. Þú átt rétt á að fá upplýsingar um þau gögn sem verið er að
    vinna með um þig þannig að þú getir gætt annarra réttinda þinna samkvæmt
    persónuverndarlögum.

    • Aðgangsréttur. Þú átt rétt á að fá upplýsingar um það hvort verið sé að vinna með
    persónuupplýsingar um þig. Í því felst réttur til að fá staðfestingu á því, afrit af
    upplýsingunum sem er verið að vinna með og aðrar upplýsingar um vinnsluna, s.s.
    tilgang og afleiðingar slíkrar vinnslu fyrir þig.

   • Andmælaréttur. Réttur til að mótmæla því að persónuupplýsingar um þig séu
    notaðar í sérstökum tilgangi s.s. í markaðslegum tilgangi.

    • Flutningsréttur. Réttur til að flytja eigin gögn sem þú hefur afhent ábyrgðaraðila,
    t.a.m. ef þú vilt endurnýta þau hjá annarri þjónusta eða ábyrgðaraðila.

    • Réttur til leiðréttingar og eyðingar. Þú átt rétt til að láta leiðrétta eða eyða
    persónuupplýsingum um þig sem eru óáreiðanlegar eða rangar.

    • Réttur til að gleymast. Í ákveðnum tilvikum átt þú rétt á því að öllum persónuupplýsingum 
    um þig sé eytt, ef þær eru ekki lengur nauðsynlegar í ljós upphaflegs tilgangs fyrir vinnslu.

Þú hefur ávallt rétt til að afturkalla samþykki þitt fyrir vinnslu persónuupplýsinga án þess
að það hafi áhrif á lögmæti vinnslunnar áður en afturköllum átti sér stað, t.d. með því að
eyða Blikk aðgangi þínum eða hafa beint samband við Blikk. Í því felst einnig afturköllun
á samþykki fyrir miðlun og vinnslu reikningsupplýsinga í þjónustu Blikk. Ef þú afturkallar
samþykki þitt þýðir það hins vegar að þú getur ekki notað þjónustu Blikk lengur í heild
eða að hluta eða ákveðnir þjónustuþættir virka ekki sem skyldi. Þegar greiðsla hefur
þegar verið virkjuð er þó ekki hægt að afturkalla greiðslu á framangreindum grundvelli.
Athygli er þó vakin á því að ef lög kveða á um skyldu til að varðveita persónuupplýsingar
lengur ganga þau framar, sbr. umfjöllun um öryggi og varðveislu upplýsinga.

Breytingar á persónuverndarstefnu Blikk

Blikk áskilur sér rétt til að breyta stefnu þessari ef við á svo hún endurspegli starfsemi
Blikk og gildandi löggjöf. Komi til breytinga verða þær aðgengilegar á vefsíðu Blikk og er
litið svo á að þú hafir samþykkt breytingarnar með áframhaldandi notkun á þjónustu
Blikk. Ef breytingarnar eru stórvægilegar verður þér tilkynnt um það sérstaklega áður en
þær taka gildi.

Tengiliður og réttarúrræði

Ef þú hefur einhverjar spurning um stefnu þessa eða vinnslu persónuupplýsinga þinna
getur þú haft samband við persónuverndarfulltrúa Blikk. Persónuverndarfulltrúi er
tengiliður við hinn skráða, veitir ráðgjöf um réttindi hans og hefur það hlutverk að fylgjast
með því að Blikk fari að persónuverndarlögum.

Ef þú telur að brotið hafi verið á rétti þínum vinsamlega hafðu samband. Allar fyrirspurnir,
athugasemdir og ábendingar sem varða persónuvernd má senda á netfangið
personuvernd@blikk.tech.

Komi upp ágreiningur um meðferð persónuupplýsinga er hægt að senda kvörtun til
Persónuverndar á netfangið postur(at)personuvernd.is eða með því að senda bréfpóst til
Persónuverndar, heimilisfang: Rauðarárstígur 10, 105 Reykjavík. Sjá nánar á vefsíðunni
www.personuvernd.is

Útgáfa

Persónuverndarstefna þessi var síðast endurskoðuð í nóvember 2023.

Hafðu
Samband

Okkur finnst mjög gaman að tala um greiðsluþjónustur og fjártækni. Ekki hika við að senda okkur línu ef þú vilt spjalla!

Við svörum fyrirspurnum eins fljótt og hægt er.

Hafðu
Samband

Okkur finnst mjög gaman að tala um greiðsluþjónustur og fjártækni. Ekki hika við að senda okkur línu ef þú vilt spjalla!

Við svörum fyrirspurnum eins fljótt og hægt er.