Notendaskilmálar Blikk

Notendaskilmálar Blikk

1. Gildissvið

1.1. Skilmálar þessir gilda um greiðsluvirkjunarþjónustu Blikk (hér eftir nefnd “þjónustan”) sem rekin er af Blikk hugbúnaðarþjónustu hf. (hér eftir “Blikk” eða “greiðsluvirkjandi”).

1.2. Með því að samþykkja skilmála þessa lýsir notandi (eða “greiðandi”) því yfir að hann hafi kynnt sér og samþykki skilmála þessa.

1.3. Skilmálar þessir ná utan um stakar greiðslur í skilningi laga um greiðsluþjónustu nr. 114/2021 (hér eftir “greiðsluþjónustulög”) og eru ekki hluti af rammasamningi í skilningi laganna.

1.3. Skilmálar þessir ná utan um stakar greiðslur í skilningi laga um greiðsluþjónustu nr. 114/2021 (hér eftir “greiðsluþjónustulög”) og eru ekki hluti af rammasamningi í skilningi laganna.

2. Um Blikk

2.1. Blikk starfar samkvæmt leyfi Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands sem greiðslustofnun samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu. Starfsleyfið tekur til leyfis til að veita þjónustu samkvæmt g- og h- lið 22. tölul. 1. mgr. 3. gr. greiðsluþjónustulaga.

2.2. Blikk sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands í samræmi við framangreint og lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. Nánari upplýsingar er hægt að finna á heimasíðu eftirlitsins á www.fme.is og frekari upplýsingar um starfsemi Blikk á heimasíðu Blikk.

2.3. Blikk áskilur sér rétt til að fela dóttur- eða hlutdeildarfélagi Blikk eða utanaðkomandi aðila afmarkaða þjónustuþætti Blikk ef til þess kemur og í samræmi við heimildir starfsleyfis og gildandi lög og reglur hverju sinni. 

2.4. Almennar upplýsingar um Blikk:
        Blikk hugbúnaðarþjónusta hf.
        kt. 530922-1620,
        Lágmúla 9,
        108 Reykjavík, Ísland.
        Netfang: hello@blikk.tech

3. Þjónusta Blikk

3.1. Blikk veitir einstaklingum og fyrirtækjum þjónustu í formi greiðsluvirkjunar og upplýsinga um greiðslureikninga. Greiðsluvirkjun er þjónusta sem felst í að virkja greiðslufyrirmæli að beiðni greiðanda til söluaðila vöru og þjónustu með millifærslu af reikningi greiðanda beint yfir á reikning söluaðilans, sem Blikk á í samningssambandi við. Reikningsupplýsingaþjónusta Blikk gerir notendum kleift að tengja greiðslureikninga sína í Blikk appið eða á vefsíðu Blikk, fá upplýsingar um stöðu þeirra og færslur, og þar með einnig greiða með Blikk.

3.2. Einungis er hægt að tengjast og senda greiðslufyrirmæli af reikningum sem skilgreindir eru sem greiðslureikningar í samræmi við greiðsluþjónustulög, nánar tiltekið reikningar í nafni eins eða fleiri notenda sem notaður er við og ætlaður til að framkvæma greiðslu, s.s. millifæra inn og út af og er ekki bundnir samkvæmt skilmálum innlánsstofnana.

3.3. Greiðsluvirkjun Blikk gerir notanda kleift að greiða fyrir vörur og þjónustu snertilaust með snjallsíma í gegnum app Blikk eða á vefsíðu þar sem sölu- og þjónustuaðili hefur innleitt greiðslulausn Blikk. Greiðslurnar virka á þann hátt að afgreiðslukerfi söluaðila sendir greiðslubeiðni í Blikk app notanda sem notandi getur svo staðfest eða hafnað. Staðfesting notanda virkjar millifærslu til söluaðila, ef inneign er til staðar, og Blikk sendir staðfestingu þess efnis tilbaka til afgreiðslukerfis.

3.4. Eftir að greiðslufyrirmæli hafa verið gefin mun greiðandi fá staðfestingu frá Blikk um að greiðslufyrirmæli hafi tekist hjá greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu (banki eða sparisjóður) ásamt tilvísun til að bera kennsl á greiðsluna, fjárhæð greiðslunnar og ef við á, fjárhæð gjalda til Blikk og sundurliðun þeirra.

3.5. Þegar greiðandi notar Blikk smágreiðslulausn eru allar greiðslur fyrir vöru og þjónustu millifærðar beint af greiðslureikningi greiðanda yfir á greiðslureikning söluaðila. Engir fjármunir fara í gegnum Blikk og er Blikk því ekki vörsluaðili fjármuna greiðanda. Blikk er eingöngu milliaðili greiðslu til söluaðila og ábyrgist ekki á neinum tímapunkti endurgjald eða annað sem greiðandi kann að verða fyrir með Blikk smágreiðslu, umfram það sem kveðið á er í greiðsluþjónustulögum.

3.6. Blikk ábyrgist ekki heldur á neinum tímapunkti gæði á vörum og þjónustu söluaðila og tekur ekki að sér milligöngu um ágreining komi slíkt upp milli greiðanda og söluaðila vegna vöru og þjónustu sem söluaðili býður upp á.

3.7. Blikk áskilur sér rétt til að hafna virkjun greiðslu ef greiðandi samþykkir ekki skilmála Blikk eða ef Blikk telur ástæðu til að ætla að verið sé að framkvæma greiðslufyrirmæli í andstöðu við skilmála Blikk og/eða ákvæði laga.

3.8. Blikk áskilur sér rétt til að afhenda notendum öll skjöl og yfirlit á rafrænu formi eða með öðrum varanlegum miðli. Jafnframt á það við um önnur skilaboð, upplýsingar og tilkynningar til notanda.

4. Stofnun aðgangs og greiðslufyrirmæli

4.1. Notandi getur stofnað aðgang að Blikk greiðsluvirkjun á vef Blikk eða í appi Blikk.

4.2. Við nýskráningu skal notandi sanna á sér deili með framvísun viðurkenndra persónuskilríkja, hér fullgildum rafrænum skilríkjum í gegnum Auðkenni. Notanda er að auki skylt að gefa upp tengiliðaupplýsingar eins og netfang til Blikk við stofnun aðgangs. Eftir auðkenningu og samþykki skilmála þessa sendir Blikk nauðsynlegar upplýsingar til greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu um notandann þannig að hann geti auðkennt sig gagnvart honum og samþykkt tengingu og miðlun á greiðslureikningsupplýsingum sínum yfir til Blikk.

4.3. Í hvert sinn sem greiðslufyrirmæli eru framkvæmd er notandi auðkenndur áður en greiðslan er framkvæmd.

4.4. Um skilmála greiðslureikninga gilda þeir skilmálar sem notandi samþykkti þegar stofnað var til reikningsins hjá greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu. Notandi er hvattur til að kynna sér þá varðandi til að mynda heimildir til innborgunar og úttekta, heimildir ófjárráða aðila til úttektar, greiðslufyrirmæli og reglur um daglegar úttektarheimildir.

5. Áreiðanleikakönnun

5.1. Í samræmi við ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 framkvæmir Blikk áreiðanleikakönnun á viðskiptamanni þegar við á. Notandi skal m.a. gangast undir áreiðanleikakönnun vegna einstakra viðskipta þegar fjárhæð þeirra verður samtals 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og þar er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, sbr. b. liður 1. mgr. 8. gr. laganna.

5.2. Blikk viðhefur eftirlit með færslum og viðskiptum og tilkynnir notanda þegar óskað er eftir að hann svari áreiðanleikakönnun.

5.3. Notanda ber eins og áður kemur fram ávallt að sanna á sér deili. Með frekari áreiðanleikakönnun ber að framvísa tilteknum grunnupplýsingum ásamt upplýsingum um stjórnmálaleg tengsl, tilgang viðskipta og uppruna fjármagns.

5.4. Notandi skal upplýsa Blikk verði breytingar á framangreindum upplýsingum og/eða staðfesta að nýju fari Blikk fram á það.

5.5. Veiti notandi ekki þær upplýsingar sem Blikk telur nauðsynlegar er óheimilt að stofna til viðskiptasambands eða heimila einstaka viðskipti. Blikk áskilur sér rétt til að meina notanda um aðgang að Blikk, segja upp þjónustu við notanda eða takmarka hana verulega ef slíkt gerist. Það sama á við ef Blikk metur svo að viðskiptasamband eða einstaka viðskipti geta falið í sér hættu á peningaþvætti og/eða fjármögnun hryðjuverka með hliðsjón af áhættumati Blikk og aðstæðum hverju sinni. Getur Blikk þá synjað um afgreiðslu greiðslufyrirmæla í gegnum Blikk og/eða lokað aðgangi án fyrirvara.

5.6. Blikk áskilur sér rétt til að hafna virkjun greiðslu ef greiðandi samþykkir ekki skilmála Blikk eða ef Blikk telur ástæðu til að ætla að verið sé að framkvæma greiðslufyrirmæli í andstöðu við skilmála Blikk og/eða ákvæði laga. 

5.7. Blikk er skylt að tilkynna til lögreglu ef grunur vaknar um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka og veita allar nauðsynlegar upplýsingar í tengslum við slíka tilkynningu.

6. Samþykki þitt

6.1. Með því að nota þjónustu Blikk og tengja greiðslureikning við Blikk samþykkir notandi að veita Blikk og greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu heimild til að sækja nauðsynlegar persónuupplýsingar og framkvæma aðgerðir af hálfu notanda til að flytja upplýsingarnar yfir á svæði Blikk þar sem notandi sér stöðu reiknings og færslur.

6.2. Blikk sækir reikningsupplýsingarnar í gegnum API vefþjónustu en til þess að framkvæma það þarf notandi að auðkenna sig í vefþjónustu greiðsluþjónustuveitanda reikningsþjónustu.

6.3. Samþykki þitt fyrir notkun á reikningsupplýsingunum er vistað hjá Blikk og sem notandi þjónustunnar er auðkenningartákn notanda og sérstakt kennimerki samþykkisins vistað þar. Þegar samþykki notanda hefur verið veitt eru upplýsingarnar fluttar á öruggan hátt með gagnaflutningi í gegnum vefþjónustuna og vistaðar hjá Blikk.

6.4. Þá er staðfesting þín á greiðslufyrirmælum túlkuð sem ótvírætt samþykki fyrir því að Blikk hafi heimild til að senda fyrirmæli til þíns greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu til framkvæmdar á greiðslu, fá upplýsingar frá þeim síðarnefnda um hvort greiðslan hafi tekist og miðla þeim til viðtakanda greiðslu.

7. Öryggisráðstafanir

7.1. Blikk áskilur sér rétt til að ákveða einhliða hvaða öryggisráðstafanir teljast fullnægjandi hverju sinni vegna þjónustu Blikk.

7.2. Notanda ber skylda til að halda öllum persónubundnum öryggisþáttum í tengslum við þjónustu Blikk leyndum og ekki deila þeim með öðrum undir neinum kringumstæðum. Þá ber notanda að framkvæma allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að óviðkomandi aðilar komist ekki yfir öryggis- og persónuupplýsingar notanda og símtækið sjálft.

7.3. Blikk áskilur sér rétt til að loka aðgangi notanda eða takmarka hann án fyrirvara ef til að mynda; a) Blikk telur að öryggi aðgangsins sé í hættu, b) grunur liggur fyrir um óheimila eða sviksamlega háttsemi, greiðslufyrirmæli eða notkun á þjónustu Blikk eða, c) Blikk er það skylt lögum samkvæmt.

8. Ábyrgð á tjóni og óviðráðanleg atvik

8.1. Blikk ber ekki almenna ábyrgð á tjóni sem notandi verður fyrir nema það megi rekja til stórkostlegs gáleysis eða ásetnings Blikk eða starfsmanna þess við framkvæmd starfa þeirra. Þá ber Blikk ekki ábyrgð á tjóni sem verður af völdum þess að Blikk sinnir lögákveðnum skyldum sínum.

8.2. Komi upp sú staða að Blikk geti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum þessum, vegna óviðráðanlegra ytri atvika (e. Force majeure), t.d. viðskiptahamlana, flutningsskaða, eldsvoða, farsóttar, verkfalla, náttúruhamfara, stríðsástands, hryðjuverka, hópslysa, deilna á vinnumarkaði, fyrirmæla stjórnvalda eða truflunar á fjarskiptum eða orkuveitum, ber Blikk ekki ábyrgð á tjóni sem skapast vegna slíkra aðstæðna.

8.3. Blikk skal þó gera allar þær ráðstafanir sem unnt er til að efna skyldur sínar eftir að slíkum aðstæðum lýkur og gera notanda viðvart um það ef þjónustan liggur niðri vegna framangreinds.

8.4. Þá ber Blikk ekki ábyrgð á tjóni sem verður vegna villandi eða ófullnægjandi upplýsingagjafar eða fyrirmæla notanda og ber notandi ábyrgð á því tjóni sem hann veldur Blikk með saknæmum hætti.

9. Persónuvernd og þagnarskylda

9.1. Blikk vinnur með persónuupplýsingar um notanda samkvæmt skilmálum þessum og í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Blikk hefur sett sér persónuverndarstefnu sem er aðgengileg á vefsíðu Blikk og með því að nota þjónustu Blikk og staðfesta skilmála þessa telst notandi samþykkja um leið skilmála persónuverndarstefnu Blikk, https://blikk.tech/personuverndarstefna/

9.2. Blikk vinnur með allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að veita þá þjónustu sem Blikk býður upp á og notandi óskar eftir. Þá getur Blikk einnig unnið með persónuupplýsingar á grundvelli sérstaks samþykkis notanda, laga og annarra réttarreglna eða í samræmi við lögmæta hagsmuni eins og nánar er lýst í persónuverndarstefnu Blikk.

9.3. Blikk og starfsmenn Blikk eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfs síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna sinna, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum.

9.4. Blikk tryggir örugga varðveislu upplýsinga og að almennar öryggisreglur séu til staðar við vinnslu og vistun persónuupplýsinga í samræmi við viðurkennda staðla.

10. Réttarúrræði notanda og úrlausn ágreiningsmála

10.1. Skilmálar þessir eru gefnir út á íslensku og um þá gilda íslensk lög og réttarreglur. Rísi mál út af skilmálum þessum skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

10.2. Um þjónustu þá sem Blikk veitir í Blikk appinu eða á vefsíðu gilda greiðsluþjónustulög en einnig gilda lög um fjarsölu á fjármálaþjónustu nr. 33/2005 þar sem eingöngu er notast við fjarskiptaaðferð við stofnun aðgangs og þjónustu hjá Blikk.

10.3. Á vefsíðu Blikk má finna upplýsingar um meðferð kvartana þar sem hægt er að senda inn ábendingar og kvartanir vegna þjónustu Blikk. Á vefsíðu Blikk er jafnframt að finna stefnu Blikk um meðferð kvartana í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, samskipti við viðskiptavini og meðhöndlun kvartana nr. 353/2022.

10.4. Í einhverjum tilvikum getur Blikk þurft að beina því til þín að hafa samband við þinn greiðsluþjónustuveita sem veitir reikningsþjónustu ef ábending eða kvörtun þín beinist að þjónustu sem þeir veita eða til söluaðila ef ábendingin eða kvörtunin beinist að þjónustu eða vöru þeirra. Nánari upplýsingar um réttarúrræði notanda má finna á vefsíðu Blikk.

10.5. Bent skal notanda einnig á að greiðsluþjónustuveitendur sem veita reikningsþjónustu eru aðilar að Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Ef ágreiningur snýr að millifærslu sem er á ábyrgð þeirra getur viðskiptavinur þeirra skotið ágreiningi sínum þangað. Nánari upplýsingar um nefndina má finna á www.nefndir.is

10.6. Neytendastofa sinnir einnig því hlutverki að huga að réttindum neytenda í viðskiptum. Á vefsíðu neytendastofu má finna upplýsingar um réttarúrræði neytanda í viðskiptum www.neytendastofa.is

11. Upplýsingagjöf og varðveisla upplýsinga

11.1. Skilmálar þessir gilda frá og með 1. maí 2024 eða frá þeim degi gagnvart notanda þegar hann samþykkir skilmálana.

11.2. Breytingar á skilmálum þessum verða tilkynntar notanda áður en þær taka gildi. Séu breytingarnar ekki til hagsbóta fyrir notanda verða þær tilkynntar með 30 daga fyrirvara og athygli vakin á þeim ásamt rétti til að segja upp aðgangi og þjónustu Blikk. Séu breytingarnar til hagsbóta fyrir notanda taka þær gildi um leið.

11.3. Notandi getur hvenær sem er sagt upp þjónustu Blikk án fyrirvara.

11.4. Blikk getur hvenær sem er sagt upp þjónustu við notanda ef hann brýtur gegn ákvæðum skilmála þessa og/eða önnur þau atvik eiga við sem koma fram í gr. 5.5. og 7.3.