Skilmálar blikk fyrir söluaðila

Skilmálar Blikk fyrir söluaðila

1. Gildissvið

1.1. Skilmálar þessir gilda um greiðsluvirkjunarþjónustu Blikk (hér eftir nefnd “þjónustan”) sem rekin
er af Blikk hugbúnaðarþjónustu hf. (hér eftir “Blikk” eða “greiðsluvirkjandi”) og samningssamband Blikk við söluaðila, kaupanda þjónustunnar.1.2. Um samningssamband Blikk og söluaðila gilda skilmálar þessir og eftir atvikum viðaukar og/eða sértækir skilmálar um einstaka þjónustuþætti.

1.2. Með því að samþykkja skilmála þessa lýsir söluaðili því yfir að hann hafi kynnt sér og samþykki
efni þeirra.

2. Um Blikk

2.1. Blikk starfar samkvæmt leyfi Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands sem greiðslustofnun samkvæmt lögum nr. 114/2021 um greiðsluþjónustu (hér eftir “gþl”). Starfsleyfið tekur til leyfis til að veita þjónustu samkvæmt g- og h- lið 22. tölul. 1. mgr. 3. gr. Gþl.

2.2. Blikk sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands í samræmi við framangreint og lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. Nánari upplýsingar er hægt að finna á heimasíðu eftirlitsins á www.fme.is og frekari upplýsingar um starfsemi Blikk á heimasíðu Blikk www.blikk.tech

2.3. Blikk áskilur sér rétt til að fela dóttur- eða hlutdeildarfélagi Blikk eða utanaðkomandi aðila afmarkaða þjónustuþætti Blikk ef til þess kemur og í samræmi við heimildir starfsleyfis og gildandi lög og reglur hverju sinni. 

2.4. Almennar upplýsingar um Blikk:
        Blikk hugbúnaðarþjónusta hf.
        kt. 530922-1620,
        Lágmúla 9,
        108 Reykjavík, Ísland.
        Netfang: hello@blikk.tech

3. Skilgreining hugtaka

Söluaðili: Lögaðili sem á í samningssambandi við Blikk og er viðtakandi greiðslu sem er virkjuð af greiðanda fyrir tilstilli Blikk sem greiðsluvirkjanda.

Greiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem á greiðslureikning og heimilar einstaka greiðslufyrirmæli tengd greiðslureikningi með því að virkja greiðslu hjá Blikk til að greiða fyrir vöru og þjónustu söluaðila.

Reikningsupplýsingaþjónusta: Beinlínuþjónusta sem veitir samsteyptar upplýsingar um einn eða fleiri greiðslureikninga sem greiðandi á hjá einum eða fleiri greiðsluþjónustuveitanda. 

Greiðsluvirkjun: Þjónusta sem felst í að virkja greiðslufyrirmæli að beiðni greiðanda í tengslum við greiðslureikning sem hann á hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda.

Greiðsluþjónustuveitandi: Fjármálafyrirtæki með leyfi til móttöku innlána og veitingu útlána. Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu er sá sem býður og viðheldur greiðslureikningi fyrir greiðanda. 

Afgreiðslustöð: Búðarkassi þar sem skráðar eru upplýsingar um seldar vörur, annað hvort á sjálfvirkan hátt eða handvirkan (e. Point of sale terminal, POS terminal).

4. Stofnun samningssambands og áreiðanleikakönnun

4.1. Þegar söluaðili hefur stofnað til viðskipta- og samningssambands við Blikk fær hann aðgang að lokuðu og öruggu aðgangssvæði á vefsvæði Blikk. 

4.2. Við upphaf viðskiptasambands eða einstaka viðskipta skal söluaðili gangast undir áreiðanleikakönnun í samræmi við ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverk nr. 140/2018. Aðila ber að veita þær upplýsingar og gögn sem óskað er vegna framkvæmdar áreiðanleikakönnunar og upplýsa um breytingar á þeim bæði að eigin frumkvæði og ef Blikk óskar þess.

4.3. Veiti söluaðili ekki þær upplýsingar sem Blikk telur nauðsynlegar er óheimilt að stofna til viðskiptasambands eða heimila einstaka viðskipti. Blikk áskilur sér einnig rétt til að segja upp viðskiptasambandi ef slíkt gerist eða takmarka það verulega. Það sama á við ef Blikk metur svo að viðskiptasamband eða einstaka viðskipti geta falið i sér hættu á peningaþvætti og/eða fjármögnun hryðjuverka með hliðsjón af áhættumati Blikk og aðstæðum hverju sinni. 

4.4. Blikk er skylt að tilkynna til lögreglu ef grunur vaknar um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka og veita allar nauðsynlegar upplýsingar í tengslum við slíka tilkynningu.

5. Þjónustan og skyldur samningsaðila

5.1. Blikk greiðsluvirkjun er þjónusta sem felst í að virkja greiðslufyrirmæli að beiðni greiðanda í tengslum við greiðslureikning sem hann á hjá greiðsluþjónustuveitanda reikningsþjónustu (banka eða sparisjóði). Greiðandi heimilar þar með einstaka greiðslufyrirmæli með virkjun greiðslu hjá Blikk til að greiða fyrir vöru og þjónustu hjá söluaðila. Blikk smágreiðslur eru greiðslur þar sem afgreiðslukerfi sendir greiðslubeiðni til Blikk app notanda sem velur að nota Blikk til að virkja greiðslu eða millifærslu fjármuna milli greiðslureikninga. Afgreiðslukerfi á afgreiðslustöð söluaðila sendir nánar tiltekið greiðslubeiðni til Blikk sem notandi getur staðfest eða hafnað. Staðfesting notanda virkjar millifærslu til söluaðila og Blikk sendir staðfestingu þess efnis tilbaka til afgreiðslukerfis. Blikk innbyggðar app greiðslur eru greiðslur þar sem greiðsluvirkjun Blikk hefur verið innbyggð í app þriðja aðila og þriðji aðili býður sínum notendum upp á í gegnum sitt app. Blikk vefgreiðslur eru greiðslur þar sem greiðsluvirkjun Blikk er framkvæmd á netinu í vefverslun þriðja aðila, greiðslubeiðni er send til greiðanda sem þarf að samþykkja greiðsluna. Aðilar semja sérstaklega um í innskráningarferlinu til hvaða þjónustu samningur þessi tekur.

5.2. Söluaðili skal innleiða hugbúnað Blikk eftir leiðbeiningum Blikk með það að markmiði að gera greiðanda mögulegt að greiða fyrir vöru og þjónustu söluaðila með Blikk smágreiðslulausn.

5.3. Blikk skal sjá til þess að leiðbeiningar á innleiðingu á hugbúnaði séu veittar og tryggja aðstoð við slíkt ef þess er óskað af hálfu söluaðila. Aðilar geta samið um í viðauka ef sérstaklega er óskað eftir vinnuframlagi Blikk starfsmanna við innleiðingu. 

5.4. Þegar greiðandi notar Blikk smágreiðslulausn eru allar greiðslur fyrir vöru og þjónustu millifærðar beint af greiðslureikningi greiðanda yfir á greiðslureikning söluaðila. Engir fjármunir fara í gegnum Blikk og er Blikk því ekki vörsluaðili fjármuna greiðanda. Blikk er eingöngu milliaðili greiðslu til söluaðila og ábyrgist ekki á neinum tímapunkti endurgjald eða annað sem greiðandi eða söluaðili kann að verða fyrir með Blikk smágreiðslu, umfram það sem kveðið á er í lögum um greiðsluþjónustu nr. 114/2021. 

5.5. Blikk ábyrgist ekki heldur á neinum tímapunkti gæði á vörum og þjónustu söluaðila og tekur ekki að sér milligöngu um ágreining komi slíkt upp milli greiðanda og söluaðila vegna vöru og þjónustu sem söluaðili býður upp á. 

5.6. Blikk áskilur sér rétt til að hafna virkjun greiðslu ef greiðandi samþykkir ekki skilmála Blikk eða ef Blikk telur ástæðu til að ætla að verið sé að framkvæma greiðslufyrirmæli í andstöðu við skilmála Blikk og/eða ákvæði laga. 

5.7. Aðilar skulu leggja sig fram við að tryggja gott orðspor hvors aðila fyrir sig með samstarfi þessu. 

5.8. Aðilar skuldbinda sig til að sinna samstarfi þessu og þjónustu hvors aðila fyrir sig af kostgæfni og ýtrustu fagmennsku og sjá til þess að þjónustan sé veitt í samræmi við lýsingu samnings þessa. 

5.9. Aðilar skulu vera með allar lögboðnar tryggingar í gildi sem eiga við um starfsemi þeirra við stofnun samningssambands. 

5.10. Skattalegar skyldur og afleiðingar sem þessi samningur hefur fyrir annan samningsaðilann, hafa ekki áhrif á hinn aðila samningsins. 

5.11. Samningsaðilum er ljóst að þjónustan getur tekið einhverjum breytingum eftir því sem fram vindur. Breytingar verða tilkynntar söluaðila ef til þeirra kemur.

6. Tengiliðir og samskipti á samningstíma

6.1. Söluaðili tilgreinir tengilið við framkvæmd þjónustunnar í innskráningarferlinu og fær uppgefnar tengiliðaupplýsingar frá Blikk eftir að innskráningu er lokið og umsókn samþykkt. 

6.2. Aðilar geta tilgreint aðra á samningstíma ef þess er óskað og ber þá að tilkynna gagnaðila það eins fljótt og auðið er. Öll samskipti samningsaðila og tilkynningar samkvæmt skilmálum þessum skulu sendar á tengilið aðila. 

6.3. Skilmálum þessum má aðeins breyta eða endurskoða með skriflegu eða rafrænu skjali sem undirritað er að báðum aðilum. 

6.4. Vakin er athygli á því að Blikk getur ekki ábyrgst að geta afgreitt beiðnir eða afhent upplýsingar nema uppgefinn tengiliður hafi samband, tilkynning hafi borist um nýjan tengilið og/eða viðkomandi geti sannað með fullnægjandi hætti að hann hafi í ljósi stöðu sinnar eða umboðs heimild til þess.

7. Gjaldtaka og greiðsluskilmálar

7.1. Þjónusta Blikk er háð því að söluaðili greiðir Blikk skilgreinda þóknun, sem sett er fram í verðskrá Blikk og uppfylli þær skyldur sem tilgreindar eru í skilmálum þessum og eftir atvikum sértækum skilmálum um einstaka þjónustuþætti. 

7.2. Verðskrá Blikk er byggð magni og umfangi þjónustuþátta, eins og lýst er í verðskrá hverju sinni. Verð er tilgreint í íslenskum krónum og án virðisaukaskatts, nema annað sé tekið fram. Reikningsfært er mánaðarlega, mánaðargjöld eru fyrirfram greidd og færslugjöld eftir á. 

7.3. Komi til breytinga á almennri verðskrá áskilur Blikk sér rétt til að breyta þjónustugjaldi sínu í samræmi við þær. Sé um breytingar til hækkunar að ræða skulu þær tilkynntar söluaðila með 30 daga fyrirvara og taka gildi að þeim fyrirvara loknum en breytingar til lækkunar skulu taka gildi um leið og hinar almennu breytingar taka gildi. 

7.4. Reikningar Blikk vegna þjónustu sem veitt er skulu vera sundurliðaðir og skilmerkilega uppsettir og í samræmi við þá þjónustuþætti sem keyptir eru. Ágreiningur um fjárhæð reiknings heimilar söluaðila ekki að hafna greiðslu á þeim hluta sem ekki er umdeildur.

7.5. Reikningstímabil miðast við almanaksmánuð. Útgáfudagur og gjalddagi reikninga er 5. hvers mánaðar og eindagi 10 dögum eftir gjalddaga. Þóknun vegna fast mánaðarlegs gjalds er fyrirframgreidd en þóknun vegna færslugjalda greiðist eftir á. 

7.6. Sé reikningur ekki greiddur á eindaga áskilur Blikk sér rétt til að fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar og krefja söluaðila um greiðslu. Það sama gildir ef aðrar vanefndir söluaðila eiga við, svo sem vegna brota á ákvæðum skilmála þessa, eða aðrir skuldheimtumenn ganga að eignum söluaðila, eða bú söluaðila verður tekið til gjaldþrotaskipta, eða söluaðili leitar nauðasamnings. Söluaðili skal greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð, eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá og með gjaldfellingardegi til greiðsludags. Upphafsdagur dráttarvaxta samkvæmt framangreindu er án tillits til þess hvort sá dagur er bankadagur eða ekki.

8. Gildistími og lok samningssambands

8.1. Upphaf samningssambands miðast við samþykki skilmála þessa og telst þá ótímabundinn samningur kominn á milli aðila. 

8.2. Aðilar geta sagt upp viðskiptum sín á milli hvenær sem er með sex mánaða fyrirvara nema ákvæði laga eða sértækra skilmálar kveði á um annað. Uppsögn skal tilkynnt með sannanlegum hætti á skriflegan eða rafrænan hátt.

8.3. Blikk áskilur sér rétt til að segja upp samningi og þjónustuþáttum við söluaðila, í heild eða að hluta, án fyrirvara að eigin frumkvæði ef söluaðili verður uppvís að því að vanefna greiðslur skv. kafla 7 og viðauka, brjóta lög eða reglur, ef viðskiptin teljast að mati Blikk fela í sér hættu á peningaþvætti og/eða fjármögnun hryðjuverka eða samningssambandið getur að mati Blikk skaðað orðspor Blikk eða samræmist ekki áhættumati Blikk. Tekur slík uppsögn þegar í stað gildi og getur Blikk stöðvað alla þjónustu til söluaðila þegar í stað. 

8.4. Þá er aðilum heimilt að rifta samningnum gagnvart gagnaðila að undangenginni áskorun, vanefni annar hvor samningsaðili aðrar skyldur sínar samkvæmt samningi þessum, og vanefndin telst veruleg. Áskorunin skal beina því að þeim sem vanefnir að hann bæti úr ágöllum innan 14 daga frá áskorun, að viðlagri riftun verði vanefndir viðvarandi að loknum þeim fresti. Í áskorun skal tilgreina ástæður riftunar. 

8.5. Við lok samnings skal söluaðili án tafar afhenda Blikk afrit af öllum afurðum, gögnum og upplýsingum sem Blikk hefur afhent söluaðila í tengslum við samning þennan.

9. Takmörkun ábyrgðar

9.1. Bótaskylda aðila takmarkast við beint tjón sem gagnaðili kann að verða fyrir í tengslum við vanefnd á skilmálum þessum. Bótaábyrgð aðila nær þannig ekki til óbeins eða afleidds tjóns gagnaðila, þ.m.t. rekstrartaps ef við á. 

9.2. Blikk ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að vera á rekstri fjarskiptanets hvort sem slíkt má rekja til bilana í línu, stöðvum eða annarra ástæðna.

9.3. Blikk ber ekki ábyrgð á tjóni sem söluaðili eða þriðji aðili á hans vegum verður valdur að án meðábyrgðar Blikk. Blikk ber hins vegar ábyrgð á sínum öryggismálum í tengslum við húsakynni hans og búnað. 

9.4. Ekkert í skilmálum þessum takmarkar þó ábyrgð aðila vegna tjóns sem kann að verða í tengslum við vinnslu á persónuupplýsingum og leiðir af ákvæði 51. gr. persónuverndarlaga.

9.5. Að öðru leyti fer um bótaábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaábyrgðar.

10. Óviðráðanleg ytri atvik

10.1. Komi upp sú staða að aðili geti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum þessum, vegna óviðráðanlegra ytri atvika (e. Force majeure), t.d. viðskiptahamlana, flutningsskaða, eldsvoða, farsóttar, verkfalla, náttúruhamfara, stríðsástands, hryðjuverka, hópslysa, deilna á vinnumarkaði, fyrirmæla stjórnvala eða truflunar á fjarskiptum eða orkuveitum, skal sá aðili tilkynna gagnaðila eins fljótt og við verður komist um slíkar aðstæður og skilgreina á hvaða hátt það hefur áhrif á samningsskyldur hans. 

10.2. Séu einhver af framangreindum aðstæðum fyrir hendi skal ekki beita vanefndarúrræðum ef öðrum aðila er ókleift að uppfylla samningsskyldur sínar enda hafi slíkar aðstæður verið tilkomnar eftir gildistöku samnings þessa og ekki fyrirsjáanlegar í aðdraganda samnings.  

10.3. Standi óviðráðanleg atvik lengur en í 14 daga getur gagnaðili, með 14 daga fyrirvara, sagt samningi upp við Blikk. Hvorugur aðila á þá kröfu á hendur hinum að öðru leyti en hvað varðar kröfur sem stofnast hafa áður en til óviðránlega atvika kom.

11. Upplýsingagjöf og varðveisla upplýsinga

11.1. Söluaðili skal láta Blikk í té allar þær upplýsingar sem Blikk telur nauðsynlegar vegna framvindu þjónustunnar og söluaðili hefur yfir að ráða nema um trúnaðarmál sé að ræða. Blikk skal halda leyndum upplýsingum, sem söluaðili lætur félaginu í té vegna vinnslu verkefna, eftir því sem farið er fram á.

11.2. Aðilar skulu tryggja örugga varðveislu upplýsinga og almennar öryggisreglur í samræmi við viðurkennda staðla. 

11.3. Blikk er eigandi þeirra gagna og upplýsinga sem verða til við notkun þjónustu Blikk og eiga uppruna sinn í greiðsluvirkjun Blikk. Hagnýting áðurnefndra gagna er á forræði Blikk, nema um annað sé sérstaklega samið enda sé slík hagnýting í samræmi við ákvæði laga og samþykki greiðanda ef um persónuupplýsingar sé að ræða.

12. Persónuvernd

12.1. Aðilar skulu hafa það að markmiði að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi allra persónuupplýsinga sem unnið er með á þeirra vegum. Aðilar skulu tryggja að komi til vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 skuli unnið með þær í samræmi við ákvæði laganna og persónuverndarstefnu félaganna. Feli þjónustan í sér vinnslu persónuupplýsinga skulu aðilar gera með sér sérstakan vinnslusamning og/eða samkomulag um sameiginlega ábyrgð eftir því sem við á. 

12.2. Blikk hefur sett sér persónuverndarstefnu sem er aðgengileg á https://blikk.tech/personuverndarstefna/ og með því að nota þjónustu Blikk og/eða undirrita samning þennan telst söluaðili samþykkja um leið skilmála persónuverndarstefnu Blikk.

13. Þagnarskylda og trúnaður

13.1. Söluaðili skuldbindur sig til að gæta fyllsta trúnaðar um öll gögn og upplýsingar sem hann verður vís að í tengslum við samstarf þetta og þjónustu Blikk. Þagnarskylda gildir um hvaðeina sem þeir fá vitneskju um í starfsemi hvors annars og leynt skal fara. Þagnarskylda þessi gildir einnig eftir að þjónustu lýkur.

13.2. Aðeins upplýsingar sem eru eða ætla má að séu á allra vitorði eða öllum aðgengilegar, falla ekki undir þagnarskyldu og trúnað aðila, nema slíkar aðstæður stafi af broti á ákvæðum skilmála þessa. 

13.3. Blikk og starfsmenn Blikk eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfs síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna sinna, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum.

14. Framsal réttinda

14.1. Söluaðila er ekki heimilt að selja, framselja eða yfirfæra á annan hátt réttindi og skyldur samkvæmt skilmálum þessum, í heild eða að hluta til, og sérhver tilraun til slíks framsals skal teljast ógild og marklaus nema fyrir liggi skriflegt eða rafrænt samþykki Blikk. 

14.2. Söluaðila er einnig óheimilt, án skriflegs eða rafræns samþykkis frá hinum, að fela öðrum aðila að ganga inn í eða taka við skyldum í sinn stað, að hluta eða öllu leyti með undirverktaka.

15. Lagaval og varnarþing

15.1 Um samningssamband aðila og skilmála þessa gilda íslensk lög og réttarreglur. Komi til ágreinings út af skilmálunum eða þeirri þjónustu sem skilmálar þessir fjallar um skulu aðilar leitast eftir því að ná sáttum en að öðrum kosti skal ágreiningi vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur.

hafðu samband

Ekki hika við að senda okkur línu ef þú ert með spurningar eða athugasemdir!
Við svörum fyrirspurnum eins fljótt og hægt er.

hafðu samband.

Ekki hika við að senda okkur línu ef þú ert með
spurningar eða athugasemdir!
Við svörum fyrirspurnum eins fljótt og hægt er.