Maí 2024

Við sláum ekki slöku við og það er frá ýmsu að segja síðan síðasta fréttabréf kom út í lok mars. Undirbúningur fyrir gangsetningar fyrstu söluaðila sem munu bjóða upp á Blikk er í fullum gangi og vöruþróun fleytir fram. Hér gefur að líta nokkra hápunkta frá síðustu vikum.

Blikkpartý!

Dagana 14. til 16. maí fer fram Nýsköpunarvika Íslands eða Iceland Innovation Week (https://www.innovationweek.is/) eins og hátíðin kallast upp á ensku. Blikk er að sjálfsögðu á meðal þátttakenda í gleðinni og auk þess að taka þátt í formlegri dagskrá Nýsköpunarvikunnar ætlum við að bjóða til veislu í Mengi að Óðinsgötu 2 í Reykjavík þar sem boðið verður upp á léttar
veitingar og kokteila.

Þetta verður ekki hefðbundið kokteilboð því við ætlum að selja hvern drykk á heila 1 kr. og að sjálfsögðu verður aðeins hægt að greiða fyrir drykkina með því að blikka. Þannig fá gestir að prófa á eigin skinni hvernig greitt er með Blikk.

IKEA og Macland bætast í hóp söluaðila

Það er með miklu stolti sem við deilum þeim fregnum að nýverið undirrituðu IKEA og Macland söluaðilasamninga við Blikk. 

IKEA

IKEA á Íslandi hóf starfsemi árið 1981 og hefur allar götur síðan vaxið fiskur um hrygg en IKEA starfrækir í dag 462 verslanir í 63 löndum. Allir þekkja glæsilega verslun IKEA við Kauptún í Garðabæ og vart er til herbergi í landinu þar sem ekki má finna að minnsta kosti eitt IKEA húsgagn. IKEA mun innan tíðar bjóða viðskiptavinum sínum upp á að greiða með Blikk bæði í verslun sinni sem og í vefverslun.

Macland

Macland var stofnað árið 2010 og er viðurkenndur þjónustuaðili fyrir Apple. Macland rekur glæsilega verslun og verkstæði í Kringlunni þar sem finna má nýjustu og flottustu græjurnar frá Apple og spjalla við helstu sérfræðinga á Íslandi í Applefræðunum.

Blikk appið á næsta leiti

Fyrsta útgáfa Blikk appsins er um það bil að verða klár. Í þessari fyrstu útgáfu appsins geta notendur nýskráð sig, tengt bankareikningana sína, greitt á afgreiðslukassa og séð kvittanir fyrir kaupum sínum. Í kjölfarið munum við svo bæta við nýrri virkni jafnt og þétt svo það má segja að þessi fyrsta útgáfa sé aðeins vísir af því sem koma skal. Það er ennþá verði að snurfusa í appinu en hér er stutt myndband sem gefur nasaþefinn af Blikk appinu.

Færsluvefur söluaðila

Eitt af lykilmarkmiðum okkar í vöruþróun er að veita bæði neytendum og söluaðilum góða yfirsýn og framúrskarandi notendaupplifun. Í því skyni höfum við þróað fyrstu útgáfu af færsluvef fyrir söluaðila þar sem söluaðilar hafa yfirlit yfir allar færslur, geta bakfært færslur og séð fjölbreyttar tölfræðiupplýsingar.

Við erum á lokametrunum með þróun á fyrstu útgáfu færsluvefsins og hér má sjá stutt myndband sem sýnir virkni hans.

Blikk í pallborði á afmælisráðstefnu
Samtaka verslunar og þjónustu

Þann 15. apríl héldu Samtök verslunar og þjónustu upp á 25 ára afmæli sitt með glæsilegri ráðstefnu undir heitinu „Framtíðin bíður ekki“.Á ráðstefnunni mátti sjá fjölmargar áhugaverðar kynningar og pallborð og komust færri að en vildu þar sem uppselt var á ráðstefnuna. 

Blikk átti sinn fulltrúa í pallborði sem kallaðist „Framtíð greiðslumiðlunar: Kostnaður, tækni og út fyrir kassann“ þar sem Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri, Haukur Skúlason framkvæmdastjóri Indó og Bjarni Gaukur Sigurðsson framkvæmdastjóri Blikk ræddu einkum reikning-í-reikning greiðslumiðlun.

Benedikt og Einar í Blikk teymið

Það gleður okkur að kynna nýja liðsmenn í Blikkteymið, þá Bensa og Einsa.

Benedikt Bjarnason

Benedikt Bjarnason hóf á dögunum störf sem forritari hjá Blikk. Benedikt sem er 26 ára gamall er tölvunarfræðingur frá HR og starfaði áður hjá Oz Sports.

Einar Hrafn Stefánsson

Einar Hrafn Stefánsson var nýverið ráðinn sem markaðsstjóri Blikk og mun hann hefja störf á næstu dögum. Einar er með gráðu í viðskiptafræði frá HÍ og hefur áður starfað sem markaðsstjóri Íslenska dansflokksins og Píeta samtakanna. Hann er þó hugsanlega betur þekktur sem liðsmaður hljómsveitanna Vök og Hatari sem eru flestum Íslendingum kunnar.