Augnablikk #1
Mars 2024
Það hefur verið í nægu að snúast hjá Blikk síðustu vikur og við höldum ótrauð áfram í þessari frábæru vegferð. Eftirfarandi er smá yfirferð um árangur síðustu vikna og spennandi áform Blikk á komandi dögum og vikum.
Fyrsta Blikkið!
Það var söguleg stund þegar við gerðum fyrstu greiðsluna með Blikk í febrúar. Blikk er greiðsluleið sem byggir alfarið á milliliðalausum millifærslum frá greiðanda til seljanda. Það eru margir sem eru forvitnir að vita hvernig greiðsluferlið fer fram og hægt væri að útskýra það í löngu máli en mynd segir meira en þúsund orð og myndband meira en milljón orð.
Hér er notast við sjalfsagreiðslulausn Glaze í afgreiðsluferlinu og þegar kemur að greiðslu hefjast samskipti Glaze við Blikk sem virkjar svo millifærslu í gegnum banka notandans.
Fyrstu viðskiptavinir Blikk
Það styttist í að Blikk fari í loftið og verði neytendum aðgengilegt sem greiðslumáti. Undanfarna daga og vikur hafa fjölmargir söluaðilar sýnt áhuga á því að bjóða upp á greiðslur með Blikk og á meðal fjölbreyttra fyrirtækja sem nú þegar hafa undirritað samning við Blikk eru fyrirtæki á borð við Heimkaup, Domino’s, Acro og YAY. Öll eiga þessi fyrirtæki það sameiginlegt að vera í framvarðarsveit þeirra sem hafa nýtt sér tækninýjungar til þess að bjóða upp á nútímalega notendaupplifun og þjónustu byggða á stafrænum grunni og það er okkur hjá Blikk mikill heiður að fá tækifæri til að starfa með slíkum fyrirtækjum.
Heimkaup
„Við hjá Heimkaupum erum afar ánægð með að vera fyrst til að bjóða upp á greiðsluleið með Blikk sem sparar viðskiptavinum okkar allan færslukostnað við greiðslu. Auk þess sem Blikk gerir okkur kleift að draga mikið úr kostnaði okkar við færslugjöld og færsluhirðingu sem gerir okkur kleift að tryggja betra verð fyrir viðskiptavini okkar.“
Birki Karl Sigurðsson
Forstöðumaður viðskiptaþróunnar Heimkaupa
Domino's
„Domino‘s hefur verið leiðandi í því að tileinka sér nýjungar í tækni og er samstarf okkar við Blikk í takt við þá stefnu okkar. Umhverfið í greiðslumiðlun er í mikilli þróun, eiginlega mætti tala um stökkbreytingu. Við fögnum nýjungum eins og Blikk sem bjóða hagstæða lausn fyrir neytendur sem og fyrirtæki með því að nýta nútímatækni. Með því að bjóða upp á Blikk opnast tækifæri fyrir viðskiptavini Domino‘s til að verða með þeim fyrstu til þess að nýta sér nýja leið í greiðslumiðlun og hlökkum við til að sjá viðtökurnar.“
Magnús Hafliðason
Forstjóri Domino‘s á Íslandi
Blikk í prufukeyrslu hjá Heklu í samstarfi við Glaze
Starfsmannafélag Heklu rekur litla verslun þar sem starfsmenn fyrirtækisins geta keypt sér millimál á vinnutíma. Verslunin er sjálfsafgreiðsluverslun þar sem kaupendur nota Glaze sjálfsafgreiðsluappið til þess að kaupa og greiða fyrir þær vörur sem þeir kaupa. Glaze hefur nú þegar tengst Blikk og í lok febrúar var prufukeyrsla þar sem eingöngu var hægt að greiða með Blikk og er þetta í fyrsta skipti sem Blikk birtist augum almennra neytenda á raunumhverfi bankanna. Skemmst er frá því að segja að prufukeyrslan gekk ljómandi vel og tóku starfsmenn Heklu vel í þessa nýbreytni.
Blikk appið væntanlegt
Nú er verið að leggja lokahönd á fyrstu útgáfu Blikk appsins og er stefnt að útgáfu þess í apríl. Í appinu munu notendur getað skráð sig í Blikk, valið og breytt hvaða reikning þeir vilja nota sem greiðslureikning, greitt á afgreiðslustöðum sem bjóða upp á Blikk, séð færsluyfirlit og kvittanir yfir Blikk greiðslur og fengið margvíslegar tilkynningar auk þess að geta átt við ýmsar stillingar sem tilheyra notkun appsins. Í næstu útgáfu appsins verður svo hægt að millifæra yfir á aðra Blikkara, sjá hvaða fríðindi notandi hefur rétt á og ýmislegt fleira spennandi.
Myndirnar sem hér fylgja gefa nasaþef af útliti appsins.
Blikk í eldlínunni
Bjarni Gaukur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Blikk, var nýverið í viðtali í Bítinu á Bylgjunni þar sem hann fór yfir samfélagslegan kostnað við greiðslumiðlun á Íslandi með núverandi greiðslulausnum og hvernig Blikk getur verið mikilvægur þáttur í því að lækka þann kostnað.
Nútímalegt og skilvirkt
Þann 15. mars sl. héldu Samtök vefiðnaðarins ráðstefnuna IceWeb í Listasafni Reykjavíkur. Bjarni Gaukur var þar með erindi þar sem hann stiklaði á stóru yfir sögu rafrænnar greiðslumiðlunar á Íslandi og kynnti til leiks Blikk sem valkost sem getur gert greiðslumiðlun nútímalegri, skilvirkari og ódýrari fyrir samfélagið í heild.
Afmælisráðstefna SVÞ
Samtök verslunar og þjónustu fagna á þessu ári 25 ára afmæli sínu með glæsilega afmælisráðstefnu í Parliament hótelinu / NASA við Austurvöll. Á meðal dagskrárliða er pallborð sem nefnist “Framtíð greiðslumiðlunar: Kostnaður, tækni og út fyrir kassann”. Þátttakendur í pallborðinu eru Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri, Haukur Skúlason framkvæmdastjóri Indó og Bjarni Gaukur Sigurðsson framkvæmdastjóri Blikk.